Áfengi í netverslunum. Hvað er löglegt og hvað ekki?

Þetta helst - Podcast tekijän mukaan RÚV

Netverslun með áfengi hefur færst í vöxt. Hún byggir á einni af meginstoðum EES-samningsins - frjálsum vöruflutningi milli landa innan evrópska efnahagssvæðisins. Í skjóli samningsins geta verslanir í löndum utan Íslands, en innan svæðisins, selt áfengi í netverslun þrátt fyrir einkaleyfi ríkisins á smásölu í gegnum ÁTVR. Vegna einkaleyfisins mega netverslanirnar ekki vera skráðar hér á landi. Íslenskar verslanir eins og Hagkaup eða Heimkaup geta því aðeins selt áfengi með því að stofna erlenda netverslun, en það er á aðeins gráu svæði hvort það telst erlend verslun ef lagerinn er í mekka íslenskrar verslunarmenningar - Skeifunni. Forsvarsmenn Hagkaups, Heimkaups, Costco, Sante, Nýju vínbúðarinnar og fleiri sem selja áfengi gegnum netið, telja engan vafa á að salan sé lögleg, segja jafnvel bara tímaspursmál hvenær innlend netverslun verður heimil. En ráðherrar eru ekki sammála um hvort athæfið er löglegt eða ólöglegt. Þeir eru heldur ekki sammála um hvaða breytingar þurfi að gera á lögum. Endurskoðun löggjafar um áfengi hefur staðið til í nokkur ár, en lítið hefur gengið í að koma slíkum breytingum í gegnum þingið. Eyrún Magnúsdóttir fjallar um grátt svæði í netverslun með áfengi og ræðir við Dóru Sif Tynes lögmann og sérfræðing í Evrópurétti.