Dancing On My Own – „Ég er út í horni og horfi á þig kyssa hana“
Fílalag - Podcast tekijän mukaan Fílalag - Perjantaisin
Kategoriat:
Robyn gaf út Dancing on My Own árið 2010 en það lifir enn góðu lífi á skemmtistöðum og heimapartíum út um allan heim. Lagið er tragískur diskóstompari, stútfullt af dansvænni örvæntingu og metrósexúalískri sænskri fegurð. Það er ekki annað hægt en að fíla kjötsöxuðu bassaynthalínuna, yfirkeyrðan vocal-trackinn og chorus-bestunina. Sagan í textanum er mannleg og sígild. Stelpan hefur sig til fyrir ballið, eftirvæntingin er mikil, hún kemur auga á draumaprinsinn á dansgólfinu en hann fer í sleik við aðra stelpu. Það er of seint að bakka út úr þessu. Það eina sem hægt er að gera er að dansa, dansa af æskuþrótti þar til orkan þverr. „Ég bara steinfíla þetta lag. Þetta er lag heillar kynslóðar. Við erum öll eirðarlaus sænsk ungmenni trying to look our best. Það vilja allir vera sérstakir, það vilja allir vera elskaðir en stundum fer allt til spillis. Þannig er það bara,“ segir Bergur Ebbi um lag Robyins. „Ég gefst upp. Þetta er Abba-uppfærsla. Sænskur diskómulningur sem fær tíu komma núll í mínum bókum. Blóm og kransar afþakkaðir,“ bætir Snorri Helgason við. Hlustið á Ranabræður fíla Dancing on My Own með Robyn í þessum nýja og stórskemmtilega þætti Fílalags.