Layla – Guð, gítar, kjuðar, dramb, ást, þrá, hamar, hnífur
Fílalag - Podcast tekijän mukaan Fílalag - Perjantaisin
Kategoriat:
Sagan sem sögð er í nýjasta þætti Fílalags er líklega ein sú stærsta í rokksögunni. Þátturinn fjallar um Laylu, blúsrokk-neglu Eric Claptons og félaga sem teygði sig nokkuð nálægt himinskautum og er enn þann dag í dag talin með metnaðarfyllstu tónverkum sem rafmagnsgítarinn hefur smíðað. „Þetta er náttúrulega nánast því oftuggið tyggjó en það kemur manni samt alltaf á óvart hversu svakalega mörg hestöfl eru í þessu lagi,“ segir Snorri Helgason. „Það er ekki hægt annað en að fíla þetta. Þetta lag bíður til dæmis upp á einhverja hröðustu innstimplun sem þekkist í rokksögunni,“ segir Bergur Ebbi en það er viðurkennt að fá lög fá alkóhólista til að opna bjór jafn hratt og einmitt Laylan hans Claptons. „Svo er það sagan á bak við þetta. Það er náttúrulega rokk-klisja líka. Þessi saga vinanna Claptons og Harrisons og hvernig sá fyrrnefndi nappaði eiginkonu vinar síns, ekki síst með Laylunni, og reyndar ýmsu öðru gítarbreimi og kukli sem hann fékkst við á þessum tíma,“ segir Snorri. „Svo er þetta líka saga hinna vinanna, Claptons og Jim Gordons trommuleikarans sem samdi Laylu með Clapton, en þeirra brall var náttúrulega ekki þessa heims heldur hreinn díabólismi og sjálfskálun,“ segir Bergur Ebbi „Enda fór þetta illa hjá þeim báðum. Clapton breyttist í Landrover keyrandi hrokagikk með sálfræðingalúkk og Gordon varð snarbilaður og situr í dag í öryggisfangelsi í Kaliforníu eftir að hann drap mömmu sína með hamri og hníf,“ segir Snorri. Allt þetta heyrist skilmerkilega þegar hlýtt er á lagið. Hér er það fílað sem aldrei fyrr þannig að menn fá gæsahúð á hásinarnar. Layla.