Covid ekki dautt úr öllum æðum, og bikaræði í Þorlákshöfn

Hádegið - Podcast tekijän mukaan RÚV

Í fyrri hluta þáttarins ræðum við um útbreiðslu kórónuveirunnar í heiminum. Á meðan við hér á landi fögnum nýfengnu frelsi - afléttingu allra samkomutakmarkanna og blússandi gangi í bólusetningum - með því að fjölmenna í miðbæinn, kíkja út á lífið, jafnvel bóka ferðir út með nýjum flugfélögum eða gömlum - er ekki sömu sögu að segja víðast hvar annars staðar í þessum heimi. Nei, því þrátt fyrir að hægt hafi á útbreiðslu kórónuveirunnar á heimsvísu að undanförnu - færast áhyggjur af delta-afbrigði kórónuveirunnar í aukana. Afbrigðið - sem fyrst greindist í Indlandi undir lok síðasta árs og er talið meira smitandi en flest önnur afbrigði veirunnar - hefur greinst í að minnsta kosti níutíu og tveimur ríkjum - og breiðist hratt út, en smitum fer ört fjölgandi svo sem í Rússlandi, Ástralíu, Ísrael og í hluta Afríku. Ríki hafa því mörg hver þurft að grípa til neyðaraðgerða eftir tilslakanir. Þór frá Þorlákshöfn er Íslandsmeistari karla í körfubolta árið 2021, eftir frækinn sigur á Keflvíkingum á föstudagskvöld. Þetta er fyrsti Íslandsmeistaratitill Þórsara og er einungis í þriðja sinn á síðustu fjörutíu árum að annað lið en Keflavík, Grindavík, Njarðvík eða KR hlýtur titilinn. En hvað skóp sigurinn og hvað gerir Ölfusinga svona góða? Guðmundur Björn ræðir við Sigurð Orra Kristjánsson, körfuboltaskríbent og ritstjóra Körfunnar.is, í síðari hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.