Drónaársir og áhrif sáttargerðar á Andrés prins
Hádegið - Podcast tekijän mukaan RÚV
Kategoriat:
Stríðið gegn hryðjuverkum sem George W. Bush lýsti yfir í kjölfar hryðjuverkaárásanna þann 11. september 2001 hefur gengið forseta á milli alla tíð síðan. Drónahernaður hefur gegnt lykilhlutverki í því stríði. Hundruð almennra borgara hafa verið drepin í drónaárásum Bandaríkjahers, árásum sem herinn hefur oft reynt að afneita þar til rannsóknarblaðamenn hafa leitt sannleikann í ljós. Ný skýrsla sem bandaríski herinn vann fyrir varnarmálaráðuneytið og lekið var í New York Times, dregur upp dökka mynd af drónaárásum Bandaríkjahers. Gunnar Hrafn Jónsson, blaðamaður og sérfræðingur í málefnum Mið-Austurlanda, ræðir við okkur um málið. Storminum í kring um bandaríska milljarðamæringinn og kynferðisafbrotamanninn Jeffrey Epstein slotar ekki. Ekki heldur þótt hann sé horfinn úr sögunni. Þrátt fyrir að ásakanir um kynferðisofbeldi og barnaníð hafi fyrst komið fram á hendur Epstein snemma á þessari öld eru enn nú, árið 2022 hraðar vendingar í málinu. Á aðeins örfáum dögum er nú búið að sakfella Ghislaine Maxwell, fyrrverandi kærustu Epsteins, fyrir hennar þátt í málinu, sýkna fangaverðina tvo sem voru á vakt daginn sem Epstein lést í fangaklefa sínum, og opinbera sáttagerð milli Virginiu Guiffre og Epsteins frá 2009 sem lið í einkamáli Guiffres gegn Andrési hertoga af Jórvík, sem hún sakar um gróft kynferðislegt ofbeldi. Við skoðum sáttagerðina og málaferlin nánar í seinni hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.