Musk kaupir í Twitter og íslenska fótboltasumarið

Hádegið - Podcast tekijän mukaan RÚV

Athafnamaðurinn Elon Musk, stofnandi bílaframleiðandans Tesla og geimferðafyrirtækisins SpaceX, keypti, í byrjun mánaðar, 9,2% hlut í samfélagsmiðlinum Twitter. Kaupverðið var rétt tæpir þrír milljarðar Bandaríkjadala eða það sem nemur um 370 milljörðum króna. Eftir kaupin er Musk, sem hefur lengi verið virkur notandi samfélagsmiðilsins, stærsti hluthafinn í félaginu. En hver er baksagan? Af hverju að kaupa bréf í Twitter? Og af hverju skipta kaupin máli? Hvað er í vændum hjá Twitter? Kristjana Björk Barðdal, tæknisérfræðingur Hádegisins og þáttastjórnandi UT hlaðvarps Ský, svarar því í tæknispjalli á föstudegi. Íslenska fótboltasumarið er hafið, en keppni í Bestu deild karla hófst í vikunni og er fyrstu umferð lokið. Keppni í Bestu deild kvenna hefst svo á þriðjudaginn í næstu viku. Fyrirkomulag þessarar efstu deildar í ár er með öðru sniði en venjulega karlamegin, en leikin verður þreföld umferð. Við spáum í spilin með Evu Björk Benediktsdóttur íþróttafréttamanni í síðari hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.