Skriðdrekar og stýrivaxtahækkun
Hádegið - Podcast tekijän mukaan RÚV
Kategoriat:
Innrás og stríðsrekstur Rússa í Úkraínu hefur leitt til þess að fjöldi ríkja heims sér nú her- og varnarmál og mikilvægi þeirra í nýju ljósi. Mörg ríki endurskoða nú stöðu sína. Til dæmis hefur afstaða Finna og Svía gjörbreyst og stjórnvöld ríkjanna íhuga nú af alvöru að sækja um aðild að Atlantshafsbandalaginu - en það hafði ekki verið á dagskrá fyrir innrás. Þá er spáð vígbúnaðarkapphlaupi og raunar segja vopnaframleiðendur að von sé á gullöld í vopnasölu á næstu árum vegna stríðsins, líkt og Gunnar Hrafn Jónsson blaðamaður fjallaði um í Hádeginu í síðustu viku. Í þessari viku fjallar Gunnar Hrafn um þróun í stríðsrekstri og endalok skriðdrekans. Peningastefnunefnd Seðlabankans hækkaði í dag stýrivexti um heilt prósentustig. Búið var að spá hækkun vaxta, en greinendum greindi á hversu mikil hækkunin yrði. Stýrivextir eru nú 3,75%. Spáð er áframhaldandi hækkun verðbólgu. Við ræðum um þýðingu þessarar hækkunar við Má Wolfgang Mixa, lektor við viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, í síðari hluta þáttarins. Hádegið er fréttaþáttur sem er á dagskrá alla virka frá 12 til 13 í umsjón Guðmundar Björns Þorbjörnssonar og Katrínar Ásmundsdóttur.